Lorraine mótelið: Paradís sem varð vettvangur harmleiks

800px-Lorraine_Motel_02_15_MAR_2012

Allt til ársins 1970 var svörtum íbúum Memphisborgar meinaður aðgangur að öllum sundlaugum borgarinnar. Öllum að undanskilinni einni: Sundlauginni í bakgarði Lorraine mótelsins. Ástæðan var sú að mótelið var það eina í borginni sem einungis þjónustaði blökkumönnum og hafði sundlaug. Þessi vin blökkumanna í borginni átti þó eftir að verða minnst fyrir frægasta ódæðisverk í sögu réttindabaráttu þeirra.

Árið 1945 keypti kaupsýslumaðurinn Walter Bailey gamalt 16 herbergja mótel og endurskýrði það í höfuðið á konu sinni Loree Bailey. Bailey sagði nafnið vísa einnig í dægurlagið Sweet Lorraine sem sungið var af uppáhalds tónlistarmanni hans, Nat King Cole.

Þegar kveðið var á um algjöran aðskilnað hvítra og svartra í suðurríkjunum á öllum opinberum stöðum ákvað Bailey að mótelið myndi einungis sinna þörfum þeirra síðarnefndu. Sú ákvörðun var skiljanleg þar sem íbúar hverfisins þar sem mótelið var staðsett voru flestir svartir.

800px-Stax_Museum_&_Satellite_Record_Shop

STAX upptökuverið í Memphis

Á sjöunda áratugnum var Lorraine mótelið þekkt fyrir að vera helsti griðarstaður svartra tónlistarmanna. Flestir þeirra störfuðu fyrir STAX upptökuverið er staðsett var skammt frá á McLemure Avenue. Þangað lögðu reglulega leið sína þau Ray Charles, Aretha Franklin, Booker T. Jones, Mavis Staples, Carla Thomas, Otis Redding, Isaac Hayes, og David Porter og létu fara vel um sig á sundlaugarbakkanum. Þegar leið á kvöldin létu svo listamennirnir sig yfirleitt hverfa í eitt herbergja mótelsins til að semja lög.

Eitt frægasta lagið sem samið var á Lorraine mótelinu er líklega smellurinn Knock on Wood. Kvöldið sem það var samið hafði Eddie Floyd, lagahöfundur hjá STAX, leigt brúðkaupssvítu mótelsins fyrir sig og Steve Cropper gítarleikara Booker T and the MG’s. Á meðan þeir köstuðu hugmyndum sín á milli geysaði þrumuveður úti sem minnti Floyd á þegar hann sem lítill drengur faldi sig undir rúmi foreldra sinna af ótta við eldingarnar. Þegar hann rifjaði þetta upp fékk Cropper skyndilega hugmyndina að texta lagsins: It’s like thunder, lightning. The way you love me is frightning. I think I’d better knock on Wood.

Það var á annarri óveðursnótt, þann 1. febrúar 1968, að af stað fór atburðarás sem átti eftir að breyta sögu mótelsins og þeirra sem það sóttu. Þá nótt bilaði pressubúnaður sorpbíls með þeim afleiðingum að tveir svartir sorphirðumenn krömdust til bana. Þennan sama dag voru 22 svartir starfsmenn sem höfðu umsjón með skolpræsum borgarinnar sendir heim launalaust á meðan hvítir yfirmenn þeirra fengu að klára vinnudag sinn á launum.

Martin Luther King á svölum Lorraine mótelsins

Martin Luther King á svölum Lorraine mótelsins

Nokkrum dögum síðar hófu um 1.100 svartir sorphirðumenn borgarinnar verkfall. Þegar komið var fram í marsmánuð ákvað mannréttindarfrömuðurinn Martin Luther King Jr. að styðja málstað sorphirðumannanna í Memphis. King, þá 39 ára gamall, var um þetta leyti að undirbúa fjölmenn mótmæli í Washington gegn fátækt í Bandaríkjunum. Hafði hann á orði við félaga sína að baráttan fyrir borgaralegum réttindum væri nú senn að ljúka og baráttan fyrir almennum mannréttindum að hefjast.

Þegar King kom til Memphis var bókað fyrir hann herbergi á Lorraine mótelinu. Daginn eftir mótmælin, þann 4. apríl 1968, var King skotin þar sem hann stóð á svölum mótelsins. Skotið hæfði hann í hægri kinn, mölvaði kjálka hans og endaði svo í vinstri öxlinni.

Fylgdarmenn Martin Luther King benda lögreglunni á hvaðan skotið kom.

Fylgdarmenn Martin Luther King benda lögreglunni á hvaðan skotið kom.

Einn aðstoðarmanna Kings hafði samband við móttökuna og bað um að hringt yrði á sjúkrabíl. Í móttökunni sat sjálf Loree Bailey sem stökk á fætur og hljóp út til að sjá hvað gerst hafði. Þegar út var komið fékk Loree hjartaslag og lést hún fimm dögum síðar. Martin Luther King lést af sárum sínum um klukkutíma eftir að hann var skotinn.

Eftir morðið á Martin Luther King dróg mjög úr aðsókn á mótelið. Þessi gamli griðarstaður svartra íbúa borgarinnar var nú orðin að skelfilegri minningu í hugum þeirra. Walter Bailey reyndi sitt ýtrasta til að halda mótelinu á floti þó ekkert gengi. Lausn mála hans kom árið 1988 þegar bandaríska rikið keypti mótelið af honum og breytti því í safn um réttindarbarráttu blökkumanna sem stendur enn í dag.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Af hryðjuverkum fyrir botni Miðjarðarhafs

Nú, þegar þetta er skrifað, er árið 2014 og enn eru átök Ísraelsmanna og Palestínumanna í deiglunni og engin lausn í sjónmáli. Eins og áður höfum við annars vegar stjórnvöld viðurkennds ríkis sem skjóta hátækni-eldflaugum sem á nokkrum dögum hafa kostað yfir þúsund manns lífið, þar með talin saklaus börn og aldraðir; og hins vegar Hamas-samtökin, sem skjóta eldflaugum í átt að borgaralegum skotmörkum í Ísrael með mjög svo takmörkuðum árangri, enda ekki eins háþróuð vopn og vopn Ísraelsmanna.

Ísraelsmenn kveðast vera að verja sig fyrir árásum Hamas. Hamas-samtökin segjast aftur á móti vera að bregðast við hernámi Ísraelsmanna í Palestínu og vilja að palestínskum föngum verði sleppt úr ísraelskum fangelsum. Það sem flækir svo stöðu Palestínumanna enn frekar er að Hamas-samtökin, sem fengu kosningu á Gaza árið 2006, hafa verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök af vestrænum stjórnvöldum og njóta því ekki alþjóðlegrar viðurkenningar (samtökin stóðu m.a. að baki sjálfsmorðssprengjuárásum á árunum 1993 til 2006) Þetta er staðan í dag í grófum dráttum.

Fyrir um 70 árum síðan var þessu nokkurn vegin öfugt farið. Gyðingar í Palestínu lutu þá bresku yfirvaldi og nokkrir af helstu leiðtogum þeirra voru meðlimir í samtökum sem voru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Bretum.

Þekktustu andspyrnusamtök gyðinga voru Haganah, sem þýðir „vörn“ á hebresku. Upphaflegt hlutverk þeirra var að verja gyðinga fyrir árásum Palestínumanna og unnu samtökin mjög náið með breskum yfirvöldum á árunum fyrir seinni heimstyrjöld. Eftir að heimsstyrjöldin hófst urðu þau aftur á móti herskárri. Það segir mikið um styrk þessara samtaka að eftir að Ísraelsríki var stofnað árið 1948 mynduðu meðlimir samtakanna að mestu varnarlið Ísraels.

Árið 1931 klauf hópur manna sig úr Haganah og mynduðu ný samtök sem þeir kölluðu Irgun. Það var mat þeirra að ekki væri nóg að verja gyðinga fyrir árásum araba, heldur þyrftu gyðingar að snúa vörn í sókn. Þessi samtök eru sérstaklega fræg fyrir að hafa staðið að baki tveimur frægum ódæðisverkum.

Hið fyrra var sprengjuárásin á Davíðshótelið í Jerúsalem þann 23 júlí 1946. Málið rataði á forsíðu Morgunblaðsins daginn eftir.

Svo var hryðjuverkinu lýst: Í dag reyndu ofbeldismenn gyðinga að sprengja í loft upp Davíðshótelið í Jerúsalem, þar sem breska stjórnin í landinu hefur margar af skrifstofum sínum, með þeim afleiðingum að hluti byggingarinnar hrundi og yfir 50 menn biðu bana, en margir særðust alvarlega.

„… Til þess að leiða athyglina frá fyrirætlun sinni, sprengdu [þeir] húsið, en ruddu sjer jafnframt leið niður í kjallara gistihússins og komu þar fyrir sprengiefni undir skrifstofum Breta. Voru þeir vopnaðir og bundu alla þá starfsmenn, sem þeir hittu fyrir. Við sprengingu hrundi eitt horn byggingarinnar alveg og gjöreyðilögðust 15-20 skrifstofuherbergi.“

„Meðal þeirra sem beið bana í sprengingunni var póstmálastjóri Breta í Gyðingalandi. Annar embættismaður þeyttist út um glugga við sprenginguna, yfir götuna og lenti á vegg á húsi hinum megin og beið bana“.

Mannfallið var í raun mun meira en stóð í lýsingunni en samtals 91 manns létu lífið, þar af 41 Palestínumaður (17 þeirra voru gyðingar). Alan Cunningham landstjóri í Palestínu var þá í London þar sem hann átti í viðræðum við bresk stjórnvöld en staðgengill hans fórst í sprengingunni.

Markmið árásarinnar var að eyðileggja skjöl sem breska yfirstjórnin hafði komið höndum yfir en þau áttu að hafa sýnt tengsl helstu frammámanna gyðinga í Palestínu við samtökin. Í fyrstu naut árásin stuðnings Haganah en þegar umfang hryðjuverksins kom í ljós var það fordæmt.

Hitt ódæðið sem getið var um hér að ofan er fjöldamorðið í Deir Yassin en um það verður ekki fjallað hér.

Önnur samtök sem voru ekki síður herská en Irgun voru Lehi samtökin, einnig kölluð Stern-gengið eftir stofnanda þess Avraham Stern. Frægasti verknaður þeirra var án efa morðið á sáttasemjara Sameinuðu þjóðanna Folke Bernadotte greifa.

Bernadotte gat sér frægðar í seinni heimsstyrjöldinni eftir að hann samdi um lausn 31,000 fanga úr þýskum fangabúðum, en af þeim voru um 450 danskir gyðingar. Síðan þá varð hann einn aðalsáttasemjari Sameinuðu þjóðanna.

Í maímánuði 1948 var Bernadotte fengið það hlutverk að semja um frið á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Meðal þeirra tillagna sem hann lagði fram var að sjálfstæð ríki Ísraels og Palestínu yrðu mynduð með samþykki beggja aðila og að palestínskir flóttamenn fengju að snúa aftur til síns heima.

Bernadotte var gagnrýndur mjög fyrir að sýna ekki málstað Ísraelsmanna nægilegan skilning og gera lítið úr því mannfalli sem þeir urðu fyrir af höndum Palestínumanna. Liðsmenn Lehi-samtakanna litu svo á að Bernadotte væri leppur Breta og þar af leiðandi óvinur Ísraelsríkis. Því þyrfti að fjarlægja hann frá viðræðunum.

Þann 17. september 1948 átti bílalest Bernadotte greifa leið í gegnum eitt af hverfum Jerúsalemborgar. Stór hertrukkur merktur ísraelska hernum staðnæmdist þá fyrir framan bílalestina og maður í herbúningi gekk í átt að bifreið greifans. Þegar bílrúðunni var skrúfað niður þreif hann upp hríðskotabyssu og skaut inn í bílinn. Fyrir skotunum urðu Bernadotte greifi og franskur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna André Serot. Báðir létust þeir af sárum sínum.

Eftir árásina voru Lehi-samtökin leyst upp og liðsmenn þeirra handteknir. Engin var aftur á móti ákærður fyrir morðið á Bernadotte og var það ekki fyrr en 1977 sem að formlega var viðurkennt að Lehi samtökin áttu þátt í tilræðinu. Málið var þá orðið fyrnt.

Hér hafa verið talin upp þrjú fræg ódæðisverk sem unnin voru af hryðjuverkasamtökum gyðinga. Í þessu samhengi skal tekið fram að ódæðisverk voru einnig framin af Palestínumönnum sem voru að bregðast við því sem þeir litu á, réttilega, sem yfirtöku lands síns.

En af hverju að rifja upp þessa sögu myndu einhverjir segja? Svarið er að hún sýnir að saga Ísraelsríkis og tilurð þess er mörkuð af hryðjuverkum sem framin voru á báða bóga. Fyrst af hryðjuverkum andspyrnuhópa gyðinga og síðar af frelsishreyfingum Palestínumanna s.s. PLO og Hamas. Munurinn liggur í því að Ísraelsmenn fengu ríki sitt viðurkennt árið 1948 og því urðu samtök eins og Haganah sama sem úrelt. Palestínumenn bíða aftur á móti enn eftir að fá sitt ríki viðurkennt af alþjóðasamfélaginu í heild sinni (svo ekki sé minnst á að bundin yrði endi á hernámið á Vesturbakkanum). Hvort friður náist þá skal ósagt.

 

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Þúsund stökkvandi skötur

article-2650849-1E859F7000000578-429_634x397 Á hverju ári safnast saman þúsundir arnarskatna í Kaliforníuflóa og mynda stóra torfu. Þessi torfa syndir síðan rétt undir yfirborðinu og stökkva sköturnar upp yfir sjávarflötin með reglulegu millibili.

Ekki er vitað afhverju sköturnar gera þetta og hafa kenningar verið á reiki meðal vísindimanna. Ein kenningin er sú að sköturnar séu að reyna að losa sig við sníkjudýr. Önnur er á þá leið að með þessu atferli sínu séu sköturnar að mynda bylgjur í hafinu sem verða til þess að lítil krabbadýr synda upp í opið ginið á þeim.

Hver sem ástæðan er, þá er þetta atferli þeirra stórfenglegt sjónarspil.

Til arnarskatna telst djöflaskatan (Mantra birostris), stærsta skata veraldar en hún getur orðið allt að 5.5 metrar á lengd og 7 metrar á breidd og vegið um tonn á þyngd. Til samanburðar, þá getur skatan (Raja batis) sem þrífst við strendur Íslands náð að hámarki 250 cm lengd.

Hér má finna smá umfjöllun um djöflaskötuna.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Hæstu byggingar veraldarsögunnar

800px-Pieter_Bruegel_the_Elder_-_The_Tower_of_Babel_(Vienna)_-_Google_Art_Project_-_edited

Í fyrstu Mósebók segir frá þegar mannkynið allt deildi sama tungumálinu og bað guð um að það mætti reisa sér borg og turn. Þegar guð sá borgina og turnin, sem kenndur var við Babel (eða Babýlon), á hann að hafa sagt að nú væri jarðarbúum ekkert ómögulegt á meðan þeir væru sem ein þjóð. Drottinn ruglaði þá tungumál þeirra og tvístraði mannkyninu um heim allan.

Þessi sagan ætti að vera flestum kunn sem eitthvað hafa kynnt sér biblíufræðin. Í ljósi þessa er athyglisvert að nánast frá stofnun kirkjunar hafa kirkjunar menn reyst gríðarháa turna drottni til dýrðar, en frá 10. öld allt fram á þá nítjándu voru kirkjur hæstu byggingar veraldar. Hér verður sagt frá þeim kirkjum.

En fyrst skulum við víkja að hæstu byggingu fornaldar.

800px-Kheops-Pyramid Í meira en 3,800 ár var Pýramídinn mikli í Giza hæsta bygging veraldar. Samkvæmt fornum heimildum var hann upphaflega 146 m hár en árið 1439 var hann mældur 139 m hár. Veður hafði þá sorfið hann niður með árunum. Í dag mælist hann 138,8 metra hár. St_Paul's_old._From_Francis_Bond,_Early_Christian_Architecture._Last_book_1913.Margar af stærstu kirkjum miðalda voru byggðar í valdatíð Normanakonunga í Englandi. Sú stærsta þeirra var líklega Pálskirkjan í London. Eftir að eldsvoði hafði nánast eytt allri borginni árið 1087 lét Vilhjálmur sigursæli reisa þar nýja kirkju. Kirkjan átti að verða stærri og glæsilegri en allar aðrar kirkjur í Englandi. Tók það rúm 200 ár að byggja hana með hléum.

Pálskirkjan hafði að geyma jarðneskar leyfar heilags Erkenwalds sem var biskup í Lundúnum á 7. öld og lögðu margir upp í pílagrímsferðir til að bera þær augum. Ekki einungis var kirkjan miðstöð trúarlífs í Lundúnum heldur einnig verslunar. Þannig reystu kaupmenn sér bása í stafni kirkjunnar líkt og kaupmennirnir í musteri Salómons samkvæmt Nýja testamentinu. Einnig kom fólk þangað til að heyra nýjustu slúðursögunar.

Gamla Pálskirkjan brann til grunna í brunanum mikla í Lundúnum árið 1666. Karl II Englandskonungur fyrirskipaði þá Christopher Wrenn að hanna nýja kirkju sem er enn í dag meðal þekktustu kennileita borgarinnar.

Lincoln_CathedralSamkvæmt 19. aldar listgagnrýnandanum John Ruskin var engin kirkja á Bretlandseyjum merkari en Dómkirkjan í Lincoln. Um þessa fullyrðingu má auðvitað deila. Eitt er þó víst að glæsileg er hún.

Byggingarsaga kirkjunar var ekki áfallalaus. Árið 1185 reið yfir England stærsti jarðskjálfti í sögu landsins. Við hann hrundi stór hluti byggingarinnar og stendur lítið eftir af upprunalegu kirkjunni.  Áföll sem þessi gáfu aftur á móti nýjum biskupum tækifæri til þess að gera endurbætur á henni og í leiðinni tengja nöfn sín við kirkjuna.

Árið 1307 var bætt við kirkjuna 160 metra há turnspíra. Með henni varð Dómkirkjan í Lincoln hæsta bygging veraldar. Þetta met átti hún allt til ársins 1549 þegar spíran brotnaði af henni í stormi.

800px-Stralsund_Marienkirche Árið 2002 voru tvær borgir á norðurströnd Þýskalands settar á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta voru borginar Wismar og Stralsund. Báðar eru þær frægar fyrir gamlar múrsteinsbyggingar sem finna má í miðbæ þeirra. Síðarnefnda borgin er þó ekki síst fræg fyrir að hafa átt hæstu byggingu veraldar.

Maríukirkjan í Stralsund átti þennan titill til ársins 1647 þegar eldingu sló niður í klukkuturn hennar með þeim afleiðingum að turnin brann til grunna. Turnin var 151 metri á hæð og því lægri en turnspíran á Dómkirkjunni í Lincoln. Í staðinn fyrir að reisa annan eins turn var reistur turn með hvolfþaki í barrokkstíl. Sá turn stendur enn í dag og er 104 metrar á hæð.

Strasbourg_Cathedral_Exterior_-_Diliff (1) Frá Bretlandi og Þýskalandi yfir til Frakklands. Dómkirkjan í Strasbourg þykir eitt besta dæmið um gotneskan arkitektúr í Frakklandi og þó víðar væri leitað. Bygging hennar hófst árið 1015 og lauk ekki fyrr en 1439. Þegar kirkjuturn Maríukirkjunnar í Stralsund brann til grunna varð dómkirkjann í Strasbourg hæsta bygging veraldar en hann er 142 metra hár.

800px-Cathedrale-de-Strasbourg-IMG_1240 Einn af merkustu munum kirkjunnar er stærsta stjarnfræðilega klukka veraldar sem smíðuð var árið 1843. Á hverjum eftirmiðdegi birtist lítið kristslíkneski ofarlega í klukkunni ásamt postulunum tólf á meðan líkneski af hana í fullri stærð galar. Kirkjan hefur í gegnum tíðina verið hugleikinn skáldum og rithöfundum á borð við Victor Hugo og Goethe en sá síðarnefndi sagði hana líkasta himnesku tré guðs. Það virðist því viðeigandi að fyrsta jólatréð sem heimildir geta um var sett upp í kirkjunni á 16. öld.

270px-Hamburg_StNikolai_Panorama Árið 1846 var hafist handa við að endurbyggja Kirkju heilags Nikulásar í Hamborg. Til verksins var fengin Breti að nafni George Gilbert Scott en hann var sérfræðingur í endubyggingu miðaldarkirkna. Nýi kirkjuturnin var mun hærri en turn gömlu kirkjunnar sem var rifin skömmu eftir aldamótin 1800.  Var turninn 147.3 metra hár þegar lokið var við byggingu hans árið 1874.

Kaldhæðni örlagana er sú að hin hái turn var mjög sýnilegur breskum flugmönnum í seinna stríði og notuðu þeir hann til að staðsetja sig þegar þeir gerðu loftárásir á borgina. Þannig hafði Gilbert Scott óafvitandi aðstoðað landa sína í hernaðaráætlunum sínum tæplega hundrað árum eftir að hann hannaði kirkjuna.

Eftir stríð var kirkjuskipið rifið voru rústirnar notaðar sem byggingarefni, en borgin var illa útleikin eftir loftárásir bandamanna. Turnin fékk aftur á móti að halda sér sem minnisvarði um afleiðingar stríðsins.

376px-Rouen_cathedral Árið 1822 sló eldingu í turn Dómkirkjunnar í Rúðuborg með þeim afleiðingum að hann brann til grunna líkt turn Maríukirkjunnar rúmum 180 árum fyrr. Þegar lokið var að endurbyggja hann árið 1876 var hann orðinn hæsti turn veraldar eða 151 metri á hæð.

Fegurð kirkjunnar var franska málaranum Claude Monet mikill innblástur og málaði hann nokkrar séríur af byggingunni.

388px-Rouen_Cathedral,_West_Facade,_Sunlight385px-Claude_Monet_-_Rouen_Cathedral,_Facade_I
Meðal þeirra fyrirmanna sem jarðsettir eru í kirkjunni má nefna Ríkharð ljónshjarta, Vilhjálm I af Normandí og Matthildi keisaraynju af Englandi.

Cologne_Cathedral

Dómkirkjan í Köln er stærsta gotneska kirkja heims. Hún var einnig hæsta bygging veraldar þegar smíði hennar lauk árið 1880. Bygging kirkjunar hófst árið 1248 en hlé var gert á henni árið 1473 og var bygging kirkjunnar ekki hafin aftur fyrr en á 19. öld.

Kirkjan átti frá upphafi að hýsa jarðneskar leifar vitringanna þriggja. Beinin voru fyrst geymd í Konstantínópel en síðan flutt til Mílanó árið 344. Þegar Friðrik Barabarossa keisari innlimaði borgina í ríki sitt lét hann flytja hinar helgu minjar til Kölnar þar sem þær eru geymdar gylltu skríni.

Cologne_Cathedral_Shrine_of_Magi

Líkt og með kirkju heilags Nikulásar þá notuðu flugmenn bandamanna dómkirkjuna í Köln til þess að staðsetja sig. Lítið stóð eftir af þeim byggingum sem voru nágrenni kirkjunnar eftir loftárásir bandamanna. Sjálf kirkjan varð fjórtán sinnum fyrir sprengjum en stóð þær allar af sér.

munster-ulm

Í fæðingarbæ Alberts Einstein, Ulm, er að finna hæstu kirkju veraldar. Ólíkt þeim kirkjum sem þegar hefur verið minnst á er kirkjan lúthersk en ekki kaþólsk. Turn kirkjunnar er 161.5 metra hár og eru 768 þrep upp á efstu hæð hans.

Ulm münster er síðasta kirkjan sem var hæsta bygging veraldar en ráðhúsið í Philadelphia í Bandaríkjunum átti þann heiður næst á eftir henni.

Hér eru nokkrar af hæstu kirkjum veraldar.

400px-St_Olaf's_church,_Tallinn,_July_2008

Ólafskirkjan í Tallinn, 124 metrar.

Péturskirkjan í Róm, 138 metrar.

Péturskirkjan í Róm, 138 metrar.

Stefánskirkjan í Vín, 136 metrar.

Stefánskirkjan í Vín, 136 metrar.

 

Frúarkirkja friðarins á Fílbeinsströndinni, sem jafnframt er stærsta kirkja heim. 158 metrar.

Frúarkirkja friðarins á Fílbeinsströndinni, sem jafnframt er stærsta kirkja heim. 158 metrar.


Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Ótrúlegar vistarverur írskra munka á eynni Skellig Michael

800px-Skellig_Michael03(js)

Á eynni Skellig Michael, suðvestur af ströndum Írlands, má finna leyfar munklausturs. Það í sjálfu sér þykir kannski ekki merkilegt, en þegar vistarverur munkanna eru skoðaðar nánar er næsta víst að margir munu reka upp stór augu. Híbýli þeirra líkjast helst hlöðnum hraukum sem einungis er hægt að nálgast með því að feta hellulagaða stíga upp snarbrattar hlíðar eyjarinnar. Ekki er vitað hvenær klaustrið var stofnað en talið er að það hafi verið á sjöttu öld. Klaustrið var síðan lagt niður annað hvort á 12. eða 13 öld. En sjón er sögu ríkari.

080Skellig_Michael

800px-Stairs_on_Skellig_Michael wiki

p010vn3j BBC

516px-Klosteranlage_Skellig_Michael wiki

800px-086Skellig_Michael wiki

084Skellig_Michael800px-Skellig_Michael_by_Maureen_(1)

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Morðtilræðið við Harry Truman

harry-truman-birthday-may-8-i

Þann 14. júní 2011 heimsótti Barack Obama, samveldið Púertó Ríkó. Var þetta fyrsta opinbera heimsókn bandarísks forseta til landsins síðan John F. Kennedy heimsótti það fimmtíu árum áður. Eins og ávallt þegar forsetar Bandaríkjanna halda af landi brott voru með honum í för fjöldi leyniþjónustumanna sem höfðu það eitt hlutverk að gæta forsetans. Fyrir þá hafði þessi ferð töluverða merkingu enda landið tengt atburði sem markaði tímamót í sögu leyniþjónustunar.

Fáni Púertó Ríkó

Fáni Púertó Ríkó

Sjálfstæðisbarátta Púertó Ríkó er blóði drifin.

Þótt landið hafi fengið fullveldi frá Spáni árið 1898 gerðu Bandaríkin tilkall til eyjarinnar. Byggðu Bandaríkjamenn kröfu sína á friðarsamningum sem þeir gerðu við Spánverja í París eftir að Spænsk-Ameríska stríðinu lauk.

Allt til ársins 1948 fóru bandarískir ríkisstjórar með öll völd í landinu. Undir verndarvæng þeirra mökuðu bandarísk stórfyrirtæki krókinn og stýrðu efnahagi landsins.

Utanríkisstefna Theodors Roosevelt bandaríkjaforseta gekk m.a. út það að tryggja bandaríska hagsmuni í Karíbahafinu.

Utanríkisstefna Theodors Roosevelt bandaríkjaforseta gekk m.a. út það að tryggja bandaríska hagsmuni í Karíbahafinu.

Eins og gefur að skilja vöktu ítök Bandaríkjamanna í efnahagi Púertó Ríkó mikla óánægju meðal fjölda íbúa landsins. Sú óánægja leiddi til þess að árið 1922 var stofnaður Þjóðernisflokkur Púertó Ríkó en aðalmarkmið hans var sjálfstæði frá Bandaríkjunum.

Árið 1937 efndi þjóðernisflokkurinn til friðsamra mótmæla í bænum Ponce þar sem ríkisstjórinn hafði aðsetur sitt. Þegar ríkisstjórinn frétti af mótmælunum bað hann lögreglustjórann í bænum að stöðva þau með öllum tiltækum ráðum.

Þessi tilskipun ríkisstjórans ýtti af stað einni blóðugustu atburðarás í sögu landsins. Um leið og mótmælendur hófu göngu sína skaut lögreglan á þá. 17 manns létu lífið í árásinni, þar á meðal ein 7 ára stúlka, og 235 manns særðust.

Lögreglumenn skjóta á mótmælendur í Ponce

Lögreglumenn skjóta á mótmælendur í Ponce

Þegar flaggberi unglingahreyfingar þjóðernisflokksins var skotin til bana greip ung stúlka fánann en var jafnóðum skotin niður. Annað ungmenn sem særst hafði í árasinni skreið meðfram jörðinni að húsvegg og skrifaði á hann með blóði sínu „lengi lifi lýðveldið, niður með morðingjanna“.

ponce-massacre

Þeir sem flúðu mótmælin voru eltir uppi og skotnir eða barðir með kylfum. Engin vopn fundust í fórum mótmælenda.

Þrettán árum eftir blóðbaðið í Ponce fyrirskipaði Albizu Campos formaður þjóðernisflokksins að gerð yrði bylting gegn valdhöfum í landinu. Opinberar byggingar voru brenndar og gerð var tilraun til þess að ræna ríkisstjóranum. Allt kom þó fyrir ekki og fjöldi þjóðernissinna létu lífið eftir átök við lögregluna.

Óeinkennisklæddur lögreglumaður og varnarliðsmaður munda byssur sínar.

Óeinkennisklæddur lögreglumaður og varnarliðsmaður munda byssur sínar.

Alvarlegustu átökin urðu í bænum Jayuya þar sem uppreisnarmenn höfðu höfðustöðvar sínar. Í trássi við lög landsins höfðu þeir dregið fána Púertó Ríkó að húni og lýst yfir sjálfstæði. Bandarísk stjórnvöld brugðust við með því að lýsa yfir herlögum í landinu og fyrirskipuðu loftárás á bæinn. Notaðar voru P-47 sprengjuvélar í árásinni. Átökunum lauk síðan þegar bandaríska þjóðvarnarliðið tók yfir Jayuya.

Bandaríska þjóðvarnarliðið hertekur Jayuyu

Bandaríska þjóðvarnarliðið hertekur Jayuyu

Og þá komum við að bandarísku leyniþjónustunni og tengslum hennar við Púertó Ríkó.

Skömmu eftir að átökunum lauk hittust þeir Oscar Collazo og Griselio Torresalo á heimili þess síðarnefnda í New York. Collazo var 36 ára, giftur þriggja barna faðir sem vann í stálverksmiðju. Griselio var 25 ára, kvensamur tveggja barna faðir og atvinnulaus. 

Oscar og Rosa Collazo

Oscar og Rosa Collazo

Báðir voru þeir frá Jayuya en höfðu flutt til Bandaríkjanna. Atburðirnir í heimabæ þeirra hafði fengið mikið á þá en systir Torresalo hafði særst í átökunum og bróðir hans tekinn höndum. Því ákváðu þeir að eitthvað yrði að gera til að þess vekja athygli á frelsisbárráttu Púertó Ríkó. Með þeim í ráðum var eiginkona Collazo, Rósa.

Áætlun þeirra var djörf svo ekki sé meira sagt.

Hugmyndin í stuttu máli var að ráða Harry S Truman forseta Bandaríkjanna af dögum á meðan hann dvaldi í gestahúsi forsetans við Pennsylvania Avenue.

Samkvæmt áætluninni sem þau settu saman átti Collazo að ganga niður götuna úr austri á meðan Torresalo gengi öfuga leið í átt að húsinu. Báðir höfðu þeir tímasett göngu sína þannig að þeir myndu mætast samstundis fyrir frama húsið. Collazo átti síðan að skjóta varðmanninn sem stóð í þrepunum fyrir framan húsið á meðan Torresalo tæki út varðhúsið sem stóð vestanmegin við það. Að því loknu átti Torresalo að skýla Collazo á meðan hann skytist upp þrepin til að brjóta glugganna við innganginn svo hægt væri að skjóta þá sem þar voru fyrir innan. Allt þetta átti aðeins að taka þrjár sekúndur. Þegar inn væri komið átti Collazo að greiða þeim leið í gegnum húsið. Báðir gerðu sér grein fyrir því að Collazo yrði líklegast að taka á sig byssuskot ef áætlunin átti að heppnast, en meðal skotvopnanna í húsinu var Thompson hríðskotabyssa.

blair-house-1950-truman

Blair House. Myndin sýnir atburðarrásina.

Þó áætlunin hafði verið vel skipulögð þá misfórst hún hrapalega. Byssa Collazo stóð á sér þegar hann ætlaði að skóta fyrsta varðmannin en í þann mund sem hann snéri sér við náði Collazo að skjóta hann í hnéð. Þegar einn leyniþjónustumannanna heyrði byssuskotið kom hann út úr húsinu austanmegin og hóf skothríð á Collazo en eitt skotið hitti hann í brjóstið. Torresalo gekk betur í leysa hlutverk sitt og kom varðmanninum vestan megin hússins á óvart. Skaut Torresalo hann til bana með fjórum skotum. Því næst skaut hann tvo aðra leyniþjónustumenn en öðrum þeirra tókst að komast aftur inn í húsið og koma þar með í veg fyrir inngöngu Torresalo.

Collazo þar sem hann liggur í blóði sínu fyrir framan húsið

Collazo þar sem hann liggur í blóði sínu fyrir framan húsið

Á meðan öllu þessu stóð hafði Truman lagt sig á annari hæð hússins. Vaknaði hann við skotbardagan sem átti sér stað rétt fyrir utan herbergisglugga hans. Þegar forsetin leit út um gluggann stóð Torresalo aðeins um tíu metrum frá honum og þurfti ekki annað en að snúa sér við og skjóta til að takast ætlunarverk sitt. Leyniþjónustumennirnir voru hins vegar fyrri til að sjá forsetann og hrópuðu á hann að hverfa úr glugganum. Í sömu mund náði einn þeirra að skjóta Torresalo rétt ofan við hægri eyrað og lést hann samstundis.

Griselio Torresola

Griselio Torresola

Collazo lifði skotbardagann af og var dæmdur til dauða fyrir tilræðið en Truman lét breyta dómnum í lífstíðarfangelsi. Rosa Collazo sat inni í átta mánuði fyrir þátt sinn í tilræðinu. Eftir að henni var sleppt hóf hún undirskriftarsöfnun til þess að fá dauðadóm eignimanns síns hnekkt en um 100.000 manns skrifuðu undir. 

Leyniþjónustumaðurinn, Lesley Corvett, sem skaut Torresalo til bana, lést sjálfur af sárum sínum sem hann fékk í skotbardaganum. Er hann enn þann dag í dag eini leyniþjónustumaðurinn sem hefur látið lífið við störf sín.

 

Ein leyniþjónustumannan lét lífið skömmu eftir að hann hafði bjargað lífi forsetans

Einn leyniþjónustumaður lét lífið skömmu eftir að hann hafði bjargað lífi forsetans

 

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Heimsfrægur rithöfundur reynir valdarán

tumblr_mwtxjjbW771rhcdszo1_1280

Yukio Mishima var einn dáðasti rithöfundur Japans á 20 öld. Ekki einungis voru bækur hans vinsælar um allan heim, heldur var Mishima einnig þekktur í heimalandi sínu sem leikari og ljósmyndafyrirsæta. Allt þetta breyttist þann 25. nóvember 1970 þegar þessi þjóðhetja Japana varð að þjóðarskömm.

Mishima fæddist í Tókýó árið 1925. Nær alla sína æsku bjó hann hjá aldaðri ömmu sinni sem leyfði honum ekki að hitta móður sína. Sú dvöl átti eftir að hafa mótandi áhrif á hinn unga Mishima.

Yukio_Mishima_1931

Mishima sem ungur drengur

Aðeins tólf ára gamall skrifaði Mishima sínar fyrstu sögur.

Mishima þurfti ekki að gegna herskyldu í seinna stríði eftir að læknir greindi hann ranglega með berkla. Þannig forðaðist hann þau dapurlegu örlög sem beið um tveggja milljóna japanskra ungmenna er létust í stríðinu.

Eftir stutta viðdvöl í fjármálaráðuneyti Japans, starf sem hann fékk í gegnum föður sinn, ákvað Mishima að helga líf sitt skrifum. Bækur hans fjölluðu ýmist um kynhneigð, dauða og þær breytingar sem urðu á japönsku samfélagi eftir seinna stríð, ekki síst á pólitíska sviðinu.

Mishima giftist árið 1958 og átti með konu sinni tvö börn. Kynhneigð hans hefur þó lengi verið deiluefni en vitað er að Mishima heimsótti reglulega hommabari, auk þess hann skrifaði um málefni samkynhneigðra í bókum sínum.

Mishima, sem þrisvar sinnum kom til greina að hljóta nóbelsverðlaunin, var sérstaklega dáður af íhaldssöflum í Japan en bækur hans hófu upp til skýjanna gömul Bushido-gildi samúræjanna. Var Mishima þeirrar skoðunar að bæði sósíalísk og kápítalísk öfl hafi mengað japanska menningu.

Margt bendir til þess að Mishima hafi séð sitt eigið líf sem listaverk. Honum var sérstaklega umhugað ytri fegurð en ekkert bauð jafn mikið við honum og hrörnaður líkami.

Mishima lagði mikla áherslu í verkum sínum á gömul japönsk gildi og ytra útlit.

Mishima lagði mikla áherslu í verkum sínum á gömul japönsk gildi og ytra útlit.

Á sjötta áratugnum lagði Mishima leið sína reglulega í líkamsræktarstöðvar. Þar kynntist hann ungum mönnum sem heilluðust af skáldinu og vildu gera hann að lærimeistara sínum.

Árið 1967 stofnaði Mishima sinn eigin einkaher sem hafði það að markmiði sínu að vernda Japanskeisara fyrir óvinum sínum. Mishima var þó engin aðdáandi Hirohito keisara en sá embættið sem órjúfanlegan hluta af þjóðaranda Japana. Gagnrýndi Mishima keisarann opinberlega og sagði hann hafa vanvirt þá sem létu lífið fyrir hann í seinna stríði þegar hann afneitaði guðleika sínum.

Stuttmynd þar sem persóna Mishima fremur seppuku

Þann 25. nóvember 1925 boðaði Mishima sjálfan sig á fund hershöfðingja í herstöð austurdeildar japanska hersins í Tókýó.  Með honum í för voru þrír ungir menn og voru þeir allir klæddir í fullan herskrúða.

Þegar komið var inn á skrifstofu hershöfðingjans tóku þeir hann föngnum. Mishima krafðist þess að hermönnum stöðvarinnar yrði safnað saman og að hann fengi að halda yfir þeim tölu. Þegar Mishima hvatti hermennina til uppreisnar gerðu þeir að honum köll og fleygðu hlutum í átt til hans. Þegar Mishima sá að ekki yrði hlustað á hann hélt hann aftur inn á skrifstofuna.

mishima+steps

Mishima fyrir framan herstöðina

Hershöfðingjanum og öðrum til mikillar skelfingar framdi hann með aðstoð tveggja fylgismanna sinna seppuku á skrifstofugólfinu. Eftir að hafa stungið hnífnum í garnir sér eins og hefðin kveður á um reyndi annar ungu mannana að höggva af honum hausinn. Eftir þrjár misheppnaðar tilraunir leysti hinn ungi maðurinn hann af hólmi og hjó hausinn af Mishima með einu höggi. Síðan hjó hann hausinn af unga manninum er hafði mistekið ætlunarverk sitt að beiðni þess síðarnefnda.

Eins og mátti búast við vakti málið mikla hneykslan í Japan. Enginn hafði framið Seppuku síðan að heimsstyrjöld lauk og var athöfnin bönnuð með lögum í landinu. Margir urðu reiðir yfir gjörðum Mishima þar sem fólk taldi hann hafa endurvakið þá hugmynd Vesturlanda um að Japanir væru þjóð föst í viðjum gamalla hefða.

Árið 1985 gerði bandaríski kvikmyndagerðamaðurinn Paul Schrader (og handritshöfundur myndarinnar Taxi Driver) mynd um ævi Mishima. Þótt myndin hafði verið hunsuð af bandarískum almenningi, enda viðfangsefnið þeim ókunnugt, er hún að mörgum talin meðal helstu meistarastykkja níunda áratugarins. Myndin fékk almenna dreifingu á vesturlöndum en var bönnuð í Japan þar sem Mishima atvikið svokallaða var ennþá algjört tabú í hugum Japana.

Lokatriði myndarinnar er sérstaklega eftiminnilegt. Þar skiptir leikstjórinn köldum raunveruleikanum þegar Mishima tekur líf sitt út fyrir rómantískan endi úr bók Mishima þar sem hetja hans fremur seppuku. Þar með gefur Schrader Mishima þann endi sem hann þráði. Maðurinn og listaverkið verður eitt.

Kvikmynd Paul Schrader um Mishima og ævi hans.

Tónlistin eftir Philip Glass er einkar tilkomumikil.

Lagið Forbidden Colors eftir Ryuichi Sakamoto, úr kvikmyndinni Merry Christmas Mr. Lawrence með David Bowie í aðalhlutverki, er samið við texta eftir Mishima.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Kvennastríðið í Nígeríu 1929

1107144

Hvað eiga konur að gera þegar karlar sýna þeim óvirðingu? Svar Igbokvenna er einfalt: Þær setjast á þá.

Skáldsagan Things Fall Apart (1958) eftir nígeríska rithöfundinn Chinua Achebe segir frá Okonkwo, ungum manni af Igbo þjóðflokknum, um það leyti er Nígería varð að breskri nýlendu.

Okonkwo heldur fast í hefðir forfeðra sinna og færir umtalsverðar fórnir til þess að viðhalda þeim. Honum tekst aftur á móti ekki að sannfæra aðra íbúa í þorpinu sínu um að hafna siðum nýlenduherranna og fremur því sjálfsmorð.

ChinuaAchebe

Chinua Achebe

Íbúarnir átta sig fljótt á því að ekkert mun verða sem áður var með komu Breta. „Heimurinn hefur engan endi. Það sem þykir gott í einu samfélagi þykir fyrirlitlegt í öðru” segir einn þorpsbúanna þegar hann hugleiðir þær breytingar sem áttu eftir að verða.

Báðar Things Fall Apart og framhald hennar, No Longer at Ease (1960), þykja lýsa vel þeim vandamálum sem fylgdu nútímavæðingu Nígeríu og hvernig þau brutu upp heilu samfélögin.

Meðal þess sem Achebe lýsir í bókum sínum voru tilraunir Breta til þess að koma á aukinni miðstýringu með því að skipa sérstaka héraðshöfðingja. Oftar en ekki urðu fyrir valinu menn sem fundu ekki til nokkurra tengsla við þorpin sem þeir áttu að vera fulltrúar fyrir.

Áður en staða héraðshöfðingja var sköpuð höfðu Igbo-konur umtalsverð áhrif innan samfélagsins. Þær tóku þátt í þorpsfundum og mynduðu sína eigin þrýstihópa. Með því að skipuleggja verkföll og sniðganga ákveðnar vörur á markaði gátu þær knúið á um breytingar í ákvörðunartöku öldungaráðsins.

Eftir því sem árin liðu jókst vald héraðshöfðingjanna og misbeyttu þeir oft valdi sínu, m.a. með því að gera búfénað og gróða kvenna á mörkuðum upptækan.

Árið 1929 náði óánægja Igbo-kvenna suðumarki. Fjórum árum áður hafði  breska yfirvaldið lagt íþyngjandi skatta á gróða af sölu pálmaolíu. Pálmaolía var þá ein helsta tekjulind innfæddra. Þó skattanir væru einungis lagðir á karlmenn þá neyddust eiginkonur þeirra iðulega til að leggja í púkkið ef ekki átti illa að fara fyrir fjölskyldunni.

Southern_and_Northern_Nigeria_c._1914

Nígería í kringum 1914.

Púðurtunnan sprakk þann 18. nóvember 1929 þegar Mark Emereuwa, héraðshöfðingi í Oloko-héraði, bað ekkju að nafni Nwanyeruwa um að telja saman húsdýr sín og fjölskyldumeðlimi. Þar sem konur áttu ekki að þurfa að svara spurningum sem þessum brást Nwanyeruwa reið við. Spurði hún á móti hvort Emereuwa hafi sjálfur talið móður sína með í manntalinu.

Eftir að Emereuwa yfirgaf heimili Nwanyeruwa efndi hún til fundar með öðrum konum í héraðinu. Á honum var ákveðið að efnt skyldi til mótmæla og farið fram á að Emereuwa yrði vikið úr embætti sínu.

Um 10.000 konur söfnuðust saman fyrir framan skristofu Emereuwa. Í fyrstu létu yfirvöld málið sig lítið varða, en þegar ekkert lát virtist ætla að verða á mótmælunum skipuðu þau Emereuwa að láta af allri skattlagningu á konur.

Emereuwa var ekki ánægður með þessi málalok. Til að sýna konunum hver færi með völdin rændi hann tveimur þeirra. Sú ákvörðun átti eftir að reynast honum dýrkeypt því skömmu síðar var honum vikið úr embætti. Fyrir mannránið var hann svo dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar.

Þessi óvænti sigur kvennana í Oloko-héraði hvatti konur í öðrum héruðum Igbolands til að grípa til sömu aðgerða.

Konurnar kölluðu aðgerðir sínar kvennastríðið því að í þeirra huga höfðu þær lýst stríði á hendur karlmönnum sem höfðu vanvirt þær.

Á meðan mótmælunum stóð máluðu konurnar sig með stríðsmálningu og voru klæddar lendarskýlum einum fata. Í höndum sínum báru þær síðan spjót sem voru umvafinn laufblöðum Pálmatrésins.

402px-A_proud_trio

Þrjár Igbo konur á fyrri hluta 20. aldar

Meðal þeirra aðferða sem Igbo-konurnar beittu við mótmælin var að „sitja” á körlunum, eins og það var kallað. Athöfnin fólst í því að konunar eltu mennina á röndunum og neyddu þá til að hlusta á hvað þær höfðu að segja. Einnig gripu þær til þeirra ráða að syngja og dansa í kringum hús þeirra og vinnustaði þannig að þeir fengu aldrei stundlegan frið. Þær meira að segja gripu til þeirra ráða að brenna kofa þeirra ef þeir neituðu að hlusta.

Bresk yfirvöld litu svo á að konunar væru lítið annað en háværir villimenn. Þegar um það bil mánuður var liðin frá því að mótmælin hófust var þolinmæði þeirra á þrotum. Lögreglumönnum var skipað að skjóta á mótmælendur. Um 50 konur létust í átökunum og aðrar 50 særðust. Fljótlega eftir þessa glæpi yfirstjórnarinnar leystust mótmælin upp.

Barátta Igbo-kvenna var þó ekki til einskins. Fjórum árum eftir að kvennastríðinu lauk var komið á nýju stjórnkerfi þar sem héraðsdómstólar leystu héraðshöfðingjana af hólmi. Staða kvenna batnaði einnig til muna og voru dæmi um það að konur gegndu stöðu héraðsdómara.

Aðferð Igbo-kvennanna virðist sáraeinföld; að neyða karlmenn til að hlusta. Viðbrögðin voru þau að skotið var á þær. Forvitnilegt er að bera kvennastríðið 1929 saman við þann veruleika sem við nú lifum við. Í þessu samhengi má velta fyrir sér hvernig brugðist er við þeim konum sem vekja athygli á stöðu kvenna og þeim aðferðum sem þær beita til þess að fanga athygli samfélagsins.

373px-Chiwetel_Ejiofor_at_the_2008_Tribeca_Film_Festival

Leikarinn, Chiwetel Ejiofor, er afkomandi fólks af Igbo-þjóðerni

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Ófrægingarherferð og ofsóknir bandarísku alríkislögreglunar á hendur kvikmyndastjörnunni, Jean Seberg

tumblr_kt27oewVr21qzn0deo1_1280París, 10 september 1979. Lík bandarísku leikkonunar Jean Seberg finnst vafið í teppi í skotti lítillar fólksbifreiðar. Seberg hafði horfið tíu dögum áður og skilið eftir sig bréf sem stílað var á son hennar. „Ég get ekki lifað lengur með taugunum mínum“ stóð í bréfinu. Seberg var 41 árs gömul.

Jean Dorothy Seberg, sem var af sænskum ættum, ólst upp í littlum smábæ í Iowa fylki.

Fjölskylda hennar var kirkjurækið fólk og aðeins fjórtán ára gömul hóf hún störf sem kennari í sunnudagsskóla. Lútherskt uppeldi Seberg hafði mjög mótandi áhrif á hana. Að sögn aðstandenda hennar var hún þjökuð af sektarkennd alla sína ævi sökum þeirra forréttinda sem hún naut sem hvít kona í miðríkjum Bandaríkjanna.

Seberg vildi ávallt hjálpa þeim sem minnst máttu sín í samfélaginu. Sérstaklega var henni umhugað um réttindabarráttu blökkumanna. Þegar Seberg var 18 ára gömul skráði hún sig NAACP, samtök sem börðust fyrir borgaralegum réttindum blökkumanna. Faðir hennar var ekki alls kostar hrifin þar sem samtökin voru sögð kommúnísk. Seberg lét aftur á móti slíka gagnrýni sem vind um eyru þjóta.

Seberg í hlutverki Jóhönnu af Örk

Seberg í hlutverki Jóhönnu af Örk

Þegar Seberg var 17 ára gömul sótti hún um hlutverk Jóhönnu af Örk í samnefndri mynd. Alls sóttu 18.000 stúlkur um hlutverkið.

Leikstjóri myndarinnar var Otto Preminger, þýskur innflytjendi og eitt stærstu nöfnunum í Hollywood á sjötta áratugnum. Preminger var alræmdur fyrir meðferð sína á leikkonum. Tvær leikkonur sem léku í myndum hans, þær Dorothy Dandridge og Maggie McNamara, áttu síðar eftir að fremja sjálfsmorð.

Preminger reyndist Seberg hinn versti harðstjóri. Hver einasta stund var skipulögð í þaula. Var leikkonunni ungu m.a. ekki leyft að fara heim til foreldra sinna yfir hátíðarnar. Að sögn sjónarvotta beitti Preminger Seberg andlegu ofbeldi og lét reglulega rigna yfir hana háðsglósum. „Þú ert lítil hnáta, hvað fær þig til að halda að þú getur leikið“, á hann eitt sinn að hafa sagt.

Eitt sinn leyfði Preminger fjölmiðlum að mæta í upptöku á atriðinu þar sem Jóhanna er brennd á bálkestinum. Ekki fór betur en svo að það kviknaði í leikmyndinni vegna bilunar í vélarbúnaði. Seberg fékk brunasár sem skildu eftir sig ljót ör. Komst sá orðrómur á kreik að Preminger hafi sjálfur ollið brunanum í auglýsingaskyni.

Næsta mynd Seberg var tekinn upp í Frakklandi. Þar kynntist hún fyrsta eiginmanni sínum, ungum frönskum lögmanni, en sagt er að hann hafi grátið með ekkasogum í brúðkaupi þeirra. Hjónaband þeirra entist ekki lengi.

Í Frakklandi gafst Seberg tækifæri til að leika í myndum ungra og upprennandi leikstjóra. Þekktasta hlutverk hennar var líklega í kvikmynd Jean-Luc Goddard,  À bout de souffle (e. Breathless), frá árinu 1962. Í svo miklum metum var hún að Francois Truffaut átti eitt sinn að hafa sagt að Seberg væri besta leikkona heims.

Seberg og Jean-Paul Belmondo í À bout de souffle (1962)

Seberg og Jean-Paul Belmondo í À bout de souffle (1962)

Árið 1962 kynntist Seberg franska rithöfundinum Romain Gary og féllu þau fljótt hugi saman. Samband þeirra var umdeilt. Hann var giftur maður þegar þau kynntust og 24 árum eldri en hún. Ekki létu þau það stoppa sig og ári síðar voru þau gift. Saman áttu hjónin einn son.

Á seinni hluta sjöunda áratugarins gaf Seberg rúmlega 10.000 dollara til Blank Panther hreyfingarinnar. Meðlimir hreyfingarinnar voru einnig reglulegir gestir á heimili Seberg. Samkvæmt frásögn sonar hennar nýttu þeir sér samviskubit leikkonunar til þess að kúga úr henni peninga.

Árið 1970 eignaðist Seberg sitt annað barn. Stúlkan, sem var getin utan hjónabands, lifði aðeins í tvo daga en hún fæddist langt fyrir tímann. Á meðan meðgöngu stóð birtist grein í slúðurdálki Newsweek þar sem fullyrt var að barnsfaðirinn væri meðlimur Blank Panther hreyfingarinnar.

Fréttin var uppspuni frá rótum runnin undan rifjum alríkislögreglunnar. J. Edgar Hoover, yfirmaður stofnunarinnar, hafði yfirumsjón með aðgerðinni. Bað hann ritstjórn blaðsins sérstalega um að bíða með birtingu greinarinnar uns þungun leikkonunnar yrði orðin öllum auðsýnileg.

Markmið alríkislögreglunnar var að „skemma þá ímynd sem almenningur hafði af Seberg“, sem hún skilgreindi sem „kynlífs öfugugga“ og andófskonu.

Að sögn Seberg fékk fréttin svo mikið á hana að hún fékk ótímabærar hríðir.

Útförin fór fram í heimabæ Seberg. Lét hún hafa opna kistu svo fjölmiðlar gætu séð að litarhaft stúlkunnar var hvítt.

482px-FBI_vs._Jean_Seberg1

Minnisblað Bandarísku alríkislögreglunnar.

Þetta voru ekki einu afskipti alríkislögreglunnar af leikkonunni. Í bréfi sem birt var eftir dauða Seberg kom í ljós að lögreglan hafði hlerað síma hennar. Vinir Seberg sögðu hana einnig hafa kvartað sáran undan því að menn eltu hana hvert fótmál og fylgdust með henni.

Seberg þjáðist af gífurlegu þunglyndi allan áttunda áratuginn og að sögn sonar hennar reyndi hún margsinnis að fremja sjálfsvíg (áttu hún t.d. að hafa reynt að kasta sér fyrir neðanjarðarlest í París).

Skömmu fyrir andlát sitt kynntis Seberg alsírskum manni að nafni Ahmed Hasni og ákvað að flytja með honum til Barcelona. Sú dvöl var þó stutt því aðeins nokkrum vikum síðar var hún aftur komin til Parísar. Er Hasni sagður hafa misnotað hana þann tíma sem þau voru í Barcelona.

Þegar Seberg tók líf sitt voru rétt um það bil tíu ár liðin frá dauða dóttur hennar. Ári síðar tók Romain Gary einnig líf sitt. Í sjálfsmorðsbréfi sínu tók Gary fram að ákvörðun hans hafði ekkert með dauða fyrrum eiginkonu sinnar að gera.

Jarðaför Jean Seberg. Romain Gary og Diego, sonur þeirra.

Jarðaför Jean Seberg. Romain Gary og Diego, sonur þeirra.

Saga Jean Seberg gefur innsýn í tíma þar sem skuggi kalda stríðsins vofði yfir öllu. Mannréttindi voru fótum troðin og það veitti litla vernd að vera Hollywood stjarna. Því frægari sem þú varst því líkegri varstu til að lenda undir smásjánni hjá J. Edgar Hoover. Hvað breyst hefur síðan þá skal ósagt látið.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Morðóða ekkjan, Belle Gunnes

belle-gunness-1

Sumar sögur þykja með svo miklum ólíkindum að þær hafa fengið goðsagnakenndan blæ. Sagan af Belle Gunness er ein þeirra. Halda áfram að lesa

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd