Þegar „Heyr mína bæn” vann Júróvisjón

6fe1c589e796bff64c81da223cb0c48f_XL Nú er stutt í að Júróvisjón hefjist í sextugasta sinn og því góður tími, fyrir þá sem vilja, til að koma út úr skápnum og viðurkenna ást sína á þessari sívinsælu söngvakeppni. Auðvitað verða þó alltaf einhverjir sem ekki eru sammála um ágæti keppninnar.

Þegar Frakkland dró sig úr Júróvisjónkeppninni árið 1982 var ástæðan sögð vera skortur á hæfileikum og meðalmennska. „Júróvisjón er minnisvarði um geðveiki sem stundum hefur verið kennd við rusl“ sagði hinn sjarmerandi yfirmaður franska ríkissjónvarpsins við þetta tilefni.

1399691443420.jpg-620x349

Conchita Wurst, sigurvegarinn frá því í fyrra.

Frakkar eru ekki þeir einu sem hafa farið í fýlu vegna Júróvisjón. Danir létu ekki sjá sig mest allan áttunda áratuginn og árið 1998 ákváðu Ítalir að hverfa tímabundið úr partíinu. Báðar þessar þjóðir komu aftur á móti við sögu þegar lagið „Non ho l’eta”, sungið af hinni 16 ára gömlu Gigliolu Cinquetti, vann keppnina árið 1964. Keppnin var haldin í Kaupmannahöfn það árið og Cinquetti var að sjálfsögðu ítölsk.

„Non ho l’eta” þekkja flestir Íslendingar í flutningi Ellýjar Vilhjálms, þá undir titlinum, „Heyr mína bæn”, en lagið var eitt vinsælasta dægurlag á Íslandi á sjöunda áratugnum. Texti þess á frummálinu fór aftur á móti fyrir brjóstið á mörgum en Cinquetti söng þar um ást ungrar stúlku til eldri manns og ósk hennar um að þau bíði aðeins lengur uns hún yrði nógu gömul til þess að þau gætu unnið hvort öðru.

Eitthvað virðist Dönum hafa haldist illa á tæknimálum þetta árið, en engar upptökur eru til af keppninni nema smá brot af flutningi vinningslagsins. Er talið að einu upptökurnar sem til voru hefðu eyðilagst í bruna hjá Danmarks Radio á sjöunda áratugnum.

Cinquetti mætti aftur í ítalska sjónvarpið 44 árum eftir að hafa unnið keppnina og endurtók flutning sinn (sjá mín 4.47).  Sýndi söngkonan þar að hún hafði engu gleymt. Því var aftur á móti látið ósvarað hvort elskuhuginn hafi gefist upp á biðinni.

Cinquetti gerði aðra tilraun til þess að vinna keppnina árið 1974 með laginu „Si”. Allt kom þó fyrir ekki þar sem þetta var árið sem ABBA mætti til leiks með „Waterloo”. Cinquetti varð því að láta sig lynda annað sætið. Það má þó teljast viðunandi árangur en aðeins írski sjarmörinn Johnny Logan hefur unnið þessa keppni oftar en einu sinni sem flytjandi. Litlu munaði að Cinquetti fengi ekki að taka þátt en um sama leiti og keppnin fór fram var verið að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hafna skyldi nýjum lögum sem gerði hjónum kleift að skilja, en fram til þessa var hjónaskilnaður bannaður með lögum á Ítalíu. Litu margir svo á að lagið væri dulbúin skilaboð til kjósenda um að hafna lögunum.

Árið 1991 var Cinquetti enn og aftur mætt á sviðið, nú sem kynnir keppninar ásamt hinum málglaða Toto Cutugno, sigurvegara keppninar frá því árinu á undan. Toto verður ekki síst minnst fyrir frammistöðu sína þetta langa langa kvöld í Rómarborg. Þess á milli sem Toto fór rangt með nöfn flytjenda laganna og faðmaði Cinquetti að sér, sá hann líka ástæðu til þess að grípa stöðugt fram í fyrir henni og útskýra einhverjar meiningar sínar svo pínlegt var á að horfa. Að lokum fór keppnin verulega fram úr áætluðum tíma og var það þá ekki síst flumbrugangi Toto um að kenna.

Hér má sjá keppnina frá 1991 í heild sinni.

Sigurlag Totos, „Insiemi”, frá söngvakeppninni í Zagreb árið 1990 fjallaði um samtakamátt Evrópu. Núna 25 árum síðar virðist lítið fara fyrir þessum samtakamætti. Úkraína tekur ekki þátt vegna stríðsástandsins heima fyrir, Rússar láta sig fátt um finnast og mæta með sína poppdívu þó öruggt megi telja að þeir fái ekki mikla ást þetta árið, Króatía er í fýlu vegna lélegs árangurs undanfarinna ára og Tyrkland neitar að taka þátt eftir sigur Conchitu Wurst í fyrra, en stjórnvöld þar í landi líta á sigur hennar sem tákn um þá úrkynjun sem þau telja að eigi sér stað á Vesturlöndum.

Það sem gerir þetta síðan nánast grátbroslegt er að móttó keppninar er, „byggjum brýr“. Hvert byggja skal þessar brýr virðist frekar óljóst nema þá að átt sé við Ástralíu, hinum megin á hnettinum, því Evrópu virðist ekki viðbjargandi. Eitt er þó nokkuð víst að Evrópa er ekkert að flýta sér að byggja brýr yfir Miðjarðarhaf.

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s