Af hræðilegum baðstofum, fylliröftum og matarást. Íslandsferð William Morris (þriðji hluti)

hdr-william-morris-updated-415

Síðan á 19. öld hefur það tíðkast að gefa því fræga fólki sem stigið hefur fæti á íslenska grund hinn virðulega titil „Íslandsvinur“. Fæstir verðskulda þó þann titil, því yfirleitt hefur fólk aðeins átt leið sína um Ísland á leið sinni til einhverns annars áfangastaðar. En ef einhvern skyldi þó nefna sem ætti þennan heiður skilið þá er það, athafnamaðurinn og hönnuðurinn William Morris.

Morris teiknaði ekki margar myndir á ferð sinni um Ísland. Aftur á móti eru til nokkrar skopmyndir af Morris sjálfum að ferðast um landið. Þessar myndir voru teiknaðar af Edward Burne-Jones, vini hans. Myndirnar sýna Morris akfeitan að borða fisk í eskimóabúning, ríðandi um á íslenskum hesti sem er við það að kikna undan byrði sinni og að reyna glíma við íslenskt fjall en aðeins sést í bústin afturendan á honum.

Teikning af William Morris að klífa íslenskt fjall eftir Edward Burne Jones

Teikning af William Morris að klífa íslenskt fjall eftir Edward Burne Jones

Eins og myndirnar bera glöggt vitni um var Morris orðin nokkuð þungur en Burne-Jones, sem hafði óbeit á offitu, lék sér oft að því að teikna myndir af vini sínum hámandi í sig mat. Vinir Morris gerðu það jafnvel sér að leik að þrengja föt hans þannig að þegar hann klæddist þeim daginn eftir virtist sem hann hafi fitnað heil ósköp um nóttina. Sjálfum lét Morris þetta sér í léttu rúmi liggja og gerði jafnvel grín að því sjálfur hversu feitur hann var orðinn. Má t.d. finna þessa lýsingu Morris í ferðabók hans eftir ferð sína að Barnafossum í Hvítá.

„Við lágum um nokkra stund á grösugum berjasælum bakkanum nálægt vatninu og horfðum á þetta undur, en snerum síðan þangað sem hestarnir voru skildir eftir. Ég blés af mæði þegar ég kom þangað, og þegar presturinn gretti sig furðu lostinn, gaf ég þá skýringu að föt mín og stígvel væru svo þung, en þá klappaði hann mér á magann og sagði alvarlegur: „Auk þess ertu svo feitur“.“

William Morris að troða sig ofan í baðkar, teikning eftir Edward Burne-Jones

William Morris að troða sig ofan í baðkar, teikning eftir Edward Burne-Jones

Eins og sönnum sælkera sæmir skrifaði Morris mikið um það sem var á boðstólunum á þeim bæum sem hann gisti á en þar kennir ýmissa grasa. Á Odda færði prófasturinn honum hangikjöt að borða, reyktan lax, norskar ansjósur, Holsteinsost og mysuost, skrýtin brúnan ost, og nokkrar lóur. Prestsfrúinn á Breiðabólsstað í Fljótshlíð færði honum sjóbirting og rauðgraut með rjóma sem Eiríkur Magnússon lýsti í athugasemdum sínum sem eins konar hlaupi með kirsuberjabragði, etin af súpudiski, og hjá Árna Thorlacíusi verslunarmanni á Stykkishólmi fengu ferðalangarnir eirrauðan þaraþystling sem veiddur var í höfninni og lét Morris vel að honum. Maturinn var þó ekki alltaf skáldinu að skapi en sérstaklega mislíkaði honum kjöt af Tjaldi sem hann fékk hjá Jóni Jónssyni söðlasmiði í Hlíðarendakoti en Morris þótti það bæði seigt og með fiskibragði. Sjálfir tóku Morris og félagar með sér kassa fullan af svínasíðum, niðursoðnu kjöti, kjötkrafti, súputeningum, kókói, niðursoðnum gulrótum, grænum baunum, salvían og lauki.

Morris segir merkilega lítið um Íslendingasögur í ferðabók sinni. Hún er aftur á móti uppfull af lýsingum af staðháttum. Að þessu leyti er ferðabók Morris ekki frábrugðin öðrum ferðabókum 19. aldar. Það sem mögulega greinir hann frá öðrum ferðalöngum sem skrifuðu um Íslandsferðir sínar er að hann færði oft í stílinn í lýsingum sínum á íslensku landslagi. Þannig líkir hann íslensku fjöllunum ýmist við gríðarstórar dómkirkjur, rómverskar súlur eða pýramída. Íslensku vötnin segir hann svo vera þunglyndislegri en önnur vötn, tærari og hræðilegri í allri sinni grænbláu dýpt. Morris veltir ekki heldur mikið fyrir sér fólkinu sem byggði landið. Vissulega má finna forvitnilegar lýsingar á einstaklingum en hann dregur engar víðtækar ályktanir af þeim um Íslendinga. Það er ekki fyrr en seinna í bréfi til vinar síns að það má finna lýsingu sem þessa:

„[Fólkið er] latt, dreymandi, án fyrirætlana eða vonar: hræðilega fátækt og vant skorti af öllu tagi – en þrátt fyrir þetta allt, blítt, vingjarnlegt, afar forvitið, uppfullt af hinum gamla menningararfi, það lifir í hrífandi fortíð sinni, má segja, innan um drauma um „Furor Norsmanorum“ og svo ánægt og glatt að maður skammaðist sín fyrir sitt eigið nöldursama líf.“

Seinna, þegar Morris hóf að skipta sér af stjórnmálum í Bretlandi hafði hann orð á því að ferðin til Íslands hafi opnað augu hans fyrir því að það væri ekki örbirgð sem veldur vansæld hjá fólki heldur misskipting. Hvergi er þó minnst á þetta atriði í ferðabók Morris þó vissulega hafi hann orðið var við fátækt á Íslandi. Þessi gagnrýni hans á hina kapítalísku skipan er því að öllum líkindum seinna tilkomin. Það má því segja að af þessu leyti hefur of mikið verið gert úr þeim áhrifum sem Morris á að hafa orðið fyrir á Íslandi. Einnig hefur verið bent á að ekki eru miklar breytingar að sjá á skáldskap hans fyrir og eftir Íslandsferðina. Engu að síður virðist landið aldrei hafa vikið úr huga hans, staðurinn þar sem hann hafði sannarlega verið hamingjusamur.

 

 

 

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s