Af hræðilegum baðstofum, fylliröftum og matarást. Íslandsferð William Morris

hdr-william-morris-updated-415

Síðan á 19. öld hefur það tíðkast að gefa því fræga fólki sem stigið hefur fæti á íslenska grund hinn virðulega titil „Íslandsvinur“. Fæstir verðskulda þó þann titil, því yfirleitt hefur fólk aðeins átt leið sína um Ísland á leið sinni til einhverns annars áfangastaðar. En ef einhvern skyldi þó nefna sem ætti þennan heiður skilið þá er það, athafnamaðurinn og hönnuðurinn William Morris.

William Morris fæddist árið 1834 í Walthamstow, einu úthverfa Lundúnarborgar. Hann var þriðja barn hjónanna William Morris eldri og Emmu Shelton en fjölskyldan var vel efnum búin.

Þegar Morris var ungur að árum fékk hann mikin áhuga á arkitektúr og vildi leggja greinina fyrir sig er hann yrði eldri. Það varð þó að bíða því árið 1852 gekk hann í Exeter háskóla í Oxford þar sem hann lagði stund á guðfræði, sögu og bókmenntir.

Í Oxford kynnist Morris Edward Burne-Jones en hann kveikti áhuga Morris á ljóðlist og myndlist. Sérstaklega heillaðist hann af verkum for-rafaelítanna, en það var félagsskapur manna á 19. öld sem sóttu hugmyndir sínar til endurreisnarinnar fyrir tíð ítalska listmálarans Rafaels. Þessi hrifning Morris af forrafaelítunum varð til þess að hann fór að einbeita sér meira að myndlist og því þurfti arkitektúrinn að bíða enn um sinn.

Proserpina (1873-1874) eftir Morris. Jane Burden, eiginkona William Morris sat fyrir.

Proserpina (1873-1874) eftir Morris. Jane Burden, eiginkona William Morris sat fyrir.

Eftir að hafa lokið háskólanámi reyndi Morris fyrir sér sem myndlistarmaður að áeggjan vinar síns og læriföðurs Dante Gabriel Rosetti. Það var um þetta leyti sem Morris gaf arkitektúrsdrauminn upp á bátinn.

Dante Gabriel Rosetti ungur að árum

Dante Gabriel Rosetti ungur að árum

Árið 1858 giftist Morris leikkonunni Jane Burden, sem rómuð var fyrir fegurð sína. Þeirra samband átti þó ekki eftir að vera hamingjusamt og átti hún í ástarsambandi við Rosetti. Samband þeirra kom þó ekki í veg fyrir að Morris og Rosetti leigðu saman sveitasetrið Kelmscott manor í Oxfordskíri. Bjuggu þau öll undir sama þaki eða allt til ársins 1874. Rosetti var þá ekki lengur vært í sama húsi og Morris-hjónin.

Jane Burden, eiginkona Morris

Jane Burden, eiginkona Morris

Árið 1861 stofnaði Morris ásamt félaga sínum Charles Faulkner hönnunarfyrirtæki og gaf þá endanlega myndlistina upp á bátinn. Meðal þeirra verkefna sem fyrirtækið tók að sér var hönnun veggfóðurs, steindra glugga og teppa, málmsmíði og textílhönnun. Það er fyrir þetta frumkvöðlastarf þeirra félaga á sviði hönnunar sem Morris er helst minnst í dag.

Dæmi um hönnun Morris

Dæmi um hönnun Morris

Morris fékkst einnig við skáldskap og sótti hann innblástur í fornnorrænar sögur og þá ekki síst Íslendingasögur. Þessi mikli áhugi hans á Íslendingasögum varð til þess að hann lærði íslensku hjá Eiríki Magnússyni bókaverði í Cambridge. Tókst með þeim mikill vinskapur og þýddu þeir í sameiningu Grettissögu og Völsungasögu á ensku en sú síðarnefnda var í sérstöku uppáhaldi hjá Morris.

Árið 1871 ákváðu Eiríkur og Morris að heimsækja Ísland og réði þar miklu að hinn 37 ára gamli Morris vildi komast í burtu frá Kelmscott manor og erfiðleikunum í hjónabandi hans og Jane. Morris tók með sér glósubók og skrifföng svo hann gæti skrifað um ferð sína en skrifin voru ætluð Georgiu, eiginkonu vinar hans Edwards Burne-Jones. Fann Morris fyrir sterkri tengingu við þessa konu sem eflaust kom til af því að hún átti í svipuðum vanda í einkalífi sínu og hann.

Með í Íslandsför Morris voru, ásamt Eiríki Magnússyni, þeir Charles Faulkner, samstarfsmaður Morris, og W. H. Evans yfirmaður í breska hernum. Faulkner kemur fyrir í skrifum Morris sem önugur fýlupoki sem ávallt var til trafala. Hann var t.d. sá fyrsti til að verða sjóveikur, síðastur á fætur, ömurlegur kokkur og átti í stöðugum þrætum við Morris sem virtist þó hafa gaman af þeim viðskiptum. Evans var aftur á móti nákvæmnismaður sem lá yfir kortum sínum og varð viðskotaillur ef hann til dæmis gat ekki kynnt eld. Það sem verra var, var að hann hló aldrei að bröndurum þeirra Morris og Faulkner. Minna ber á Eiríki í lýsingum Morris en honum virðist hafa verið mikið í mun að sýna landið í sem bestu ljósi og var mjög miður sín þegar hlutirnir gengu ekki sem skyldi. Sjálfur lýsir Morris sér sem kappsmanni miklum og hæðist stöðugt að sjálfum sér.

Ferðafélagarnir lögðu af stað frá Edinborg í byrjun júlí og var ferðinni fyrst heitið til Færeyja.

Um íbúa eyjarinnar hafði Morris þetta að segja:

„Fólkið sem við hittum var mjög kurteist, geðgott og virtist ánægt. Konurnar voru ekki laglegar, en fjarri því að vera neinar herfur. Aftur á móti voru karlmennirnir myndarlegir og báru sig alltaf vel í sínum snotra búningi. … [Þeir] voru oft dökkir á hörund og þunglyndislegir á svip, sem eðlilegt er um þá, sem dvelja í litlum afskekktum eyjum.“

Færeyingar frá Hvalvík árið 1899

Færeyingar frá Hvalvík árið 1899

Næst lá leiðin til Íslands og komu þeir fyrst að landi í Berufirði án þess þó að stoppa við. Þá var siglt rakleitt til Reykjavíkur. Ekki er hægt að segja að Morris hafi heillast að staðnum. Ströndin þótti honum lág og leiðinleg en bærinn var þó skárri að hans mati en bæirnir í Norður-Englandi. Aftur á móti þótti Morris meira til sveitabæjanna á Engey og Viðey koma. Ferðalangarnir stoppuðu í Reykjavík í tvo daga en héldu svo af stað til Bergþórshvols í Landeyjum. Á leiðinni gistu þeir í tjöldum og áttu aðeins stutta viðkomu í Odda þar sem þeim var boðið í heldri stofuna hjá prófastinum. Morris lét vel að híbýlum prestsins en varð aftur á móti illilega brugðið þegar hann kom til bóndans á Bergþórshvoli.

„Þetta var fyrsti bóndabærinn, sem ég hafði komið inn í því baðstofan hjá prófastinum í Odda var óvanalega vegleg, jafnvel á prestsetri. Hold mitt nötraði af ótta … því ég var uppfullur af hinum heimskulegustu ferðamannasögum.“

Meðal þess sem þeir Morris og félagar höfðu meðferðis frá Englandi voru byssur sem þeir notuðu til að veiða smáfugla svo sem Spóa og Lóur, sem þeir síðan elduðu sér til matar. Á Bergþórshvoli mátti aftur á móti litlu muna að þeir hefðu orðið manni að fjörtjóni en þá fór Eiríkur Magnússon heldur ógætilega með byssu sína.

„Þegar Eiríkur ætlaði að fjarlægja skotið úr byssu sinni, tókst ekki betur til en svo, að hann kom við gikkinn og skotið reið af og fór um það bil sex þumlunga frá höfði bóndans og lenti í bitanum fyrir ofan dyrnar. Eiríkur varð fölur sem nár og ég er viss um að eins hefur farið fyrir mér. En enginn týndi lífi og bóndinn skellihló, svo við reyndum allir að gera sem minnst úr þessu.“

Næst lá leiðin til Hlíðarenda en þar hitti Morris fyrir Jón Jónsson söðlasmið frá Hlíðarendakoti. Jón bauðst að taka Morris með sér í dagsferð til Þórsmerkur en staðurinn kom Morris úr jafnvægi þar sem hann var framandi manni sem fram til þessa haft lært að meta hið blíða landslag Englands.

„Sannarlega var þetta það sem ég kom til að sjá, en samt fannst mér ég vera bugaður eins og ég mundi aldrei komast til baka. En þessu fylgdi einnig upphafning og mér virtist ég skilja hvernig menn ættu að finna ímyndun sína örvast á slíkum stað, þrátt fyrir allt óhagræðið.“

Morris þótti landslagið í Þórsmörk hrikalegt

Morris þótti landslagið í Þórsmörk hrikalegt

Frá Hlíðarenda var haldið til Geysis þar sem ferðalangarnir stöldruðu við í tvo daga. Síðan vestur yfir Kaldadal og stoppað á bænum Kalmannstungu þar sem Morris neyddist til að sofa í einum af þessum hræðilegu baðstofum. Eftir erfiða ferð yfir Arnarvatnsheiði komu ferðalangarnir við á bænum Grímsnesi. Þá var haldið til Víðidalstungu þar sem Morris fékk að líta nokkra muni svo sem útsaumað klæði með efni úr ritningunni og leit út fyrir að vera frá 13. öld. Morris benti aftur á móti réttilega á að klæðið væri líklega frá 18. öld eins og fram kemur í grein eftir Elsu Guðjónsson fornleifafræðing sem birtist í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 2001. Klæði þetta dúkkaði upp áratug síðar í Englandi þegar það var boðið Safni Viktoríu og Alberts til kaups en ágóðinn átti að renna til bágstaddra Íslendinga.

Á seinni helmingi ferðalags síns hélt Morris vestur í dali og skoðaði sögusvið Laxdælu. Síðan var farið um Snæfellsnes þar sem Morris náði að yfirstíga ótta sinn við skriðunar í Búlandshöfða en um þær hafði hann nokkrar hryllingssögur. Frá Snæfellsnesi var svo haldið til Reykholts og þaðan yfir Kaldadal til Þingvalla.

Meðal þeirra sem urðu á vegi Morris voru nokkrir drykkjumenn, en Morris virðist hafa haft hina mestu skemmtan af slíkum uppákomum. Í Hrútafirði rak einn fullur Íslendingur hausinn inn fyrir tjaldskörina hjá Morris og sagði að honum hafi verið fyrirskipað að sjá um hesta þeirra leiðangursmanna. Eftir að hafa þegið smá viskí í flösku sína sem merkt var miða sem á stóð „möndluolía“ hélt maðurinn flöskunni á móti tunglsljósinu til að sjá hversu mikið hann ætti. Síðan settist hann klofvega ofan á mæni á útihúsi og hóf upp raust sína við litla hrifningu leiðangursmanna. Svo leið um nokkra stund og Morris og félagar héldu aftur í tjöld sín en langt var liðið á nóttina. Ekki voru þeir þó lausir við kauða því aftur var tjaldskörinni lyft og inn rak maðurinn hausinn og spurði hvort þeir vildu ekki að hann syngdi fyrir þá. Morris var ekki á þeim buxunum og hélt þá maðurinn á brott.

Önnur skemmtileg uppákoma varð þegar þeir Morris settust niður í gestastofunni hjá bóndanum á Helgafelli í Helgafellssveit. Gefum Morris orðið.

„[Bóndinn] kom inn meðan við vorum að drekka kaffið og spurði okkur allt í einu hvað klukkan væri. Við sögðum hálf fimm, sem var rétt samkvæmt okkar klukkum. Þá sagði hann: „Þið eruð vitlausir, hún er hálf ellefu, lítið á mína klukku“. Við gerðum það og hún var fimm. Hann hélt samt sínu fram, en allt í einu varð hann á sama máli og við. Ég er hræddur um að hann hafi verið drukkinn.“

Morris dvali í þrjá daga Þingvöllum áður en hann hélt áfram ferð sinni til Reykjavíkur. Þegar til Reykjavíkur var komið höfðu Morris og ferðafélagar hans lokið sex vikna ferðalagi um Ísland á hestbaki. Morris var byrjaður að finna til heimþrár en jafnframt var hann dapur yfir því að ferð hans var brátt á enda. Lauk Morris ferð sinni endanlega þann 7. september en þá voru liðnir rétt rúmlega tveir mánuðir síðan hann lagði upp í hana.

Morris teiknaði ekki margar myndir á ferð sinni um Ísland. Aftur á móti eru til nokkrar skopmyndir af Morris sjálfum að ferðast um landið. Þessar myndir voru teiknaðar af Burne-Jones. Myndirnar sýna Morris akfeitan að borða fisk í eskimóabúning, ríðandi um á íslenskum hesti sem er við það að kikna undan byrði sinni og að reyna glíma við íslenskt fjall en aðeins sést í bústin afturendan á honum.

Teikning af William Morris að klífa íslenskt fjall eftir Edward Burne Jones

Teikning af William Morris að klífa íslenskt fjall eftir Edward Burne Jones

Eins og myndirnar bera glöggt vitni um var Morris orðin nokkuð þungur en Burne-Jones, sem hafði óbeit á offitu, lék sér oft að því að teikna myndir af vini sínum hámandi í sig mat. Vinir Morris gerðu það jafnvel sér að leik að þrengja föt hans þannig að þegar hann klæddist þeim daginn eftir virtist sem hann hafi fitnað heil ósköp um nóttina. Sjálfum lét Morris þetta sér í léttu rúmi liggja og gerði jafnvel grín að því sjálfur hversu feitur hann var orðin. Má t.d. finna þessa lýsingu Morris í ferðabók hans eftir ferð sína að Barnafossum í Hvítá.

„Við lágum um nokkra stund á grösugum berjasælum bakkanum nálægt vatninu og horfðum á þetta undur, en snerum síðan þangað sem hestarnir voru skildir eftir. Ég blés af mæði þegar ég kom þangað, og þegar presturinn gretti sig furðu lostinn, gaf ég þá skýringu að föt mín og stígvel væru svo þung, en þá klappaði hann mér á magann og sagði alvarlegur: „Auk þess ertu svo feitur“.“

William Morris að troða sig ofan í baðkar, teikning eftir Edward Burne-Jones

William Morris að troða sig ofan í baðkar, teikning eftir Edward Burne-Jones

Eins og sönnum sælkera sæmir skrifaði Morris mikið um það sem var á boðstólunum á þeim bæum sem hann gisti á en þar kennir ýmissa grasa. Á Odda færði prófasturinn honum hangikjöt að borða, reyktan lax, norskar ansjósur, Holsteinsost og mysuost, skrýtin brúnan ost, og nokkrar lóur. Prestsfrúinn á Breiðabólsstað í Fljótshlíð færði honum sjóbirting og rauðgraut með rjóma sem Eiríkur Magnússon lýsti í athugasemdum sínum sem eins konar hlaupi með kirsuberjabragði, etin af súpudiski, og hjá Árna Thorlacíusi verslunarmanni á Stykkishólmi fengu ferðalangarnir eirrauðan þaraþystling sem veiddur var í höfninni og lét Morris vel að honum. Maturinn var þó ekki alltaf skáldinu að skapi en sérstaklega mislíkaði honum kjöt af Tjaldi sem hann fékk hjá Jóni Jónssyni söðlasmiði í Hlíðarendakoti en Morris þótti það bæði seigt og með fiskibragði. Sjálfir tóku Morris og félagar með sér kassa fullan af svínasíðum, niðursoðnu kjöti, kjötkrafti, súputeningum, kókói, niðursoðnum gulrótum, grænum baunum, salvían og lauki.

Morris segir merkilega lítið um Íslendingasögur í ferðabók sinni. Hún er aftur á móti uppfull af lýsingum af staðháttum. Að þessu leyti er ferðabók Morris ekki frábrugðin öðrum ferðabókum 19. aldar. Það sem mögulega greinir hann frá öðrum ferðalöngum sem skrifuðu um Íslandsferðir sínar er að hann færði oft í stílinn í lýsingum sínum á íslensku landslagi. Þannig líkir hann íslensku fjöllunum ýmist við gríðarstórar dómkirkjur, rómverskar súlur eða pýramída. Íslensku vötnin segir hann svo vera þunglyndislegri en önnur vötn, tærari og hræðilegri í allri sinni grænbláu dýpt. Morris veltir ekki heldur mikið fyrir sér fólkinu sem byggði landið. Vissulega má finna forvitnilegar lýsingar á einstaklingum en hann dregur engar víðtækar ályktanir af þeim um Íslendinga. Það er ekki fyrr en seinna í bréfi til vinar síns að það má finna lýsingu sem þessa:

„[Fólkið er] latt, dreymandi, án fyrirætlana eða vonar: hræðilega fátækt og vant skorti af öllu tagi – en þrátt fyrir þetta allt, blítt, vingjarnlegt, afar forvitið, uppfullt af hinum gamla menningararfi, það lifir í hrífandi fortíð sinni, má segja, innan um drauma um „Furor Norsmanorum“ og svo ánægt og glatt að maður skammaðist sín fyrir sitt eigið nöldursama líf.“

Seinna, þegar Morris hóf að skipta sér af stjórnmálum í Bretlandi hafði hann orð á því að ferðin til Íslands hafi opnað augu hans fyrir því að það væri ekki örbirgð sem veldur vansæld hjá fólki heldur misskipting. Hvergi er þó minnst á þetta atriði í ferðabók Morris þó vissulega hafi hann orðið var við fátækt á Íslandi. Þessi gagnrýni hans á hina kapítalísku skipan er því að öllum líkindum seinna tilkomin. Það má því segja að af þessu leyti hefur of mikið verið gert úr þeim áhrifum sem Morris á að hafa orðið fyrir á Íslandi. Einnig hefur verið bent á að ekki eru miklar breytingar að sjá á skáldskap hans fyrir og eftir Íslandsferðina. Engu að síður virðist landið aldrei hafa vikið úr huga hans, staðurinn þar sem hann hafði sannarlega verið hamingjusamur.

 

 

 

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s